Aðalnámskrár

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008 , grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti gefið út nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin.

Aðalnámskrá er rammi um skólastarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögum um skólastigin. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla.

Í námskránum birtist menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.

Á þessum vef eru birtar aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Vefurinn inniheldur einnig námskrárgrunn mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem heldur utan um áfanga- og brautarlýsingar framhaldsskóla.

Vinnuvefur kennara

Á vinnuvef kennara eru birt gögn er varða námskrárgerð. Þar má m.a. finna hæfnikröfur starfa, ýmsar leiðbeiningar, hæfniviðmið í ýmsum námsgreinum og önnur vinnugögn kennara.

Málþing um námskrár

Hér má finna upplýsingar og gögn um málþing sem haldin eru reglulega á vegum mennta-og menningarmálaráðuneytis og varða aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Nám til framtíðar

Kynningarvefur mennta- og menningarmálaráðuneytis um grunnþætti menntunar og nýjar aðalnámskrár.